58 | Njósnaskandall í Bretlandi og fá fátækustu ríkin bóluefni?

Release Date:

Í Heimskviðum í dag er fjallað um eina flóknustu og dýrustu opinberu rannsókn í sögu Bretlands, um stöðu fátækustu ríkja heims þegar bóluefni gegn Covid 19 eru annars vegar og um framtíð orkugjafa nú þegar reynt er að draga úr brennslu kola.

Þegar upp komst að breski umhverfisaðgerðasinninn Mark Stone væri í raun leynilögreglumaðurinn Mark Kennedy óraði fáa fyrir því að uppgötvunin myndi leiða af sér einhverja flóknustu og dýrustu opinberu rannsókn í sögu Bretlands. Áratug síðar hefur komið í ljós að að minnsta kosti 139 lögreglumenn störfuðu um lengri tíma sem njósnarar inni í hinum ýmsu hópum aðgerðasinna. Tugir njósnaranna áttu í ástarsamböndum við aðgerðasinna sem þeir njósnuðu um, og minnst þrír feðruðu börn. Rannsóknin heldur áfram næstu árin og enn er margt á huldu. Þórunn Elísabet Bogadóttir segir frá.

Um fátt annað er talað þessa dagana en bóluefni gegn COVID-19. Bóluefnið er líklega eina raunhæfa leið okkar úr úr faraldrinum sem hefur haft áhrif á líf nær allra jarðarbúa á árinu. Um tvö hundruð bóluefni hafa verið í þróun og í haust fóru að berast fréttir af því að nokkur hefðu gefið góða raun. Sums staðar er annaðhvort byrjað að bólusetja eða þá að slíkt ferli er á næsta leiti. En hvernig verður staða fátækustu ríkja heims í kapphlaupinu um bóluefnin? Dagný Hulda Erlendsdóttir fjallar um málið.

Enginn af orkugjöfum mannkyns mengar jafn mikið og kol. Það skiptir því miklu máli í baráttunni við hamfarahlýnun að draga úr og helst hætta brennslu kola. Hvernig gengur það og getur alþjóðleg samvinna í baráttunni við kórónuveiruna vísað veginn? Bogi Ágústsson ræðir við Halldór Þorgeirsson, formann Loftslagsráðs.

Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

58 | Njósnaskandall í Bretlandi og fá fátækustu ríkin bóluefni?

Title
58 | Njósnaskandall í Bretlandi og fá fátækustu ríkin bóluefni?
Copyright
Release Date

flashback