Claudia Sheinbaum, nýkjörinn forseti Mexíkó, er boðberi betri tíma

Veröffentlicht:

Claudia Sheinbaum varð í byrjun júní fyrsta konan sem er kjörin forseti Mexíkó. Aldrei áður hefur forseti þar í landi náð kjöri með jafnmörgum atkvæðum. Yfir 35 milljónir atkvæða með nafni Sheinbaum, komu upp úr kjörkössunum og hún hlaut yfir sextíu prósent atkvæða. Næsti frambjóðandi, stjórnmálakonan Xochitl Galvez, var ekki einu sinni hálfdrættingur á við Sheinbaum, hlaut innan við 30 prósent atkvæða.

Sheinbaum er með doktorsgráðu og hefur sérhæft sig í loftslagsmálum. Hún er virt vísindakona, er af gyðingaættum og hóf feril sinn í stjórnmálum sem yfirmaður umhverfismála, eða nokkur konar umhverfisráðherra Mexíkóborgar, þar sem hún átti síðar eftir að verða borgarstjóri. Hún er náinn samstarfsmaður fráfarandi forseta, Manuels Lopez Obradors, og hefur sagst ætla að halda áfram á braut aukinnar velferðar og jöfnuðar í landinu. Og hún segist ætla að vinna gegn ofbeldi gegn konum, sem er útbreitt í landinu, og fækka glæpum, meðal annars með því að tryggja að þeim sem brjóta af sér, verði refsað. Verkefnin eru því ærin.

Claudia Sheinbaum tekur við embætti forseta Mexíkó 1. október . Þá verður að koma í ljós hvernig til tekst við að berjast gegn spillingu, ofbeldi og glæpum, setja umhverfið á oddinn, minnka fátækt, halda úti sanngjörnu skattkerfi og bæta kjör mexíkósku þjóðarinnar. Forseti Mexíkó má aðeins sitja eitt sex ára kjörtímabil og Sheinbaum hefur því tíma til ársins 2030 til að koma sínum baráttumálum til leiðar.

Eyrún Magnúsdóttir fjallar um kjör Sheinbaum, stöðu hennar og verkefnin framundan í þættinum.

Til viðtals er Tania Zarak Quintana, aðstoðarframkvæmdastjóri þróunar hjá True North og stjórnandi hlaðvarpsins Cable a Tierra, þar sem fjallað er um málefni Mexíkó meðal annars, en hún er vongóð um að nýr forseti sé tákn um jákvæðar breytingar í heimalandinu.

Þá er rætt við Gunnvöru Rósu Eyvindardóttur alþjóðastjórnmálafræðing og kennara en hún segir kjörið marka ákveðin tímamót og líklegt að Sheinbaum verði fyrirmynd annarra kvenna í Mexíkó líkt og Vigdís Finnbogadóttir varð hér á landi þegar hún var kjörin forseti fyrst kvenna.

Marta Quintana de Zarak er ljósmyndari og býr í Mexíkó. Hún telur Sheinbaum færa fólkinu í Mexíkó von og segist telja að henni muni takast að draga úr spillingu í landinu.

Claudia Sheinbaum, nýkjörinn forseti Mexíkó, er boðberi betri tíma

Titel
Claudia Sheinbaum, nýkjörinn forseti Mexíkó, er boðberi betri tíma
Copyright
Veröffentlicht

flashback