Íshellar á Breiðamerkurjökli

Veröffentlicht:

Íshellaferðir á Breiðamerkurjökli, og raunar víðar, njóta mikilla vinsælda. Myndbönd innan úr fagurbláum íshellum hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum og eftirspurn eftir ferðunum er mikil. Samkvæmt talningu Vatnajökulsþjóðgarðs hafa 195 þúsund manns farið í íshellaferð í vetur.

Ekki er hægt að fara í íshella árið um kring, og ekki er alltaf hægt að segja til um hvenær þeir eru tilbúnir og hvenær þarf að loka þeim. Reyndir jöklaleiðsögumenn sem Þetta helst hefur rætt við segja að ekki sé ráðlegt að lofa ferðum í íshella, nema mögulega á tímabilinu frá desember og fram í mars.

Nú er þó svo komið að sum fyrirtæki, einkum stærri fyrirtæki í þessum bransa, auglýsa og selja ferðir á Breiðamerkurjökli langt fram í tímann og teygja tímabilið yfir í að ná frá október og fram í júní. Séu náttúrulegir íshellar ekki klárir á þessum tíma þá sé farið í framkvæmdir til að stækka hellana, búa til aðgengi eða jafnvel búa til hella, en fyrir því eru engin leyfi innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Þetta vekur upp spurningar um hversu mikið inngrip er eðlilegt? Má bræða jökul og höggva í hann í nafni aðgengis og þess að lengja íshellatímabilið?

Íris Ragnarsdóttir Pedersen er til viðtals í þættinum. Hún situr í stjórn Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi, Association of Icelandic Mountain Guides, skammstafað AIMG. Hún er sjálf menntuð í jöklaleiðsögn og býr á Svínafelli í Öræfum. Hún telur að of langt hafi verið gengið til að halda íshellunum opnum lengur og telur þjóðgarðinn verða að grípa inní. Segir hún að margir jöklaleiðsögumenn séu hugsi yfir þróuninni í íshellaferðum á Breiðamerkurjökli.

Til þess að fá leyfi til að selja íshellaferðir eða jöklaferðir innan þjóðgarðsins þarf sérstakt leyfi. Fyrirtæki þurfa vera með ákveðnar tryggingar, njóta samþykkis Ferðamálastofu, hafa sett sér umhverfisstefnu og vera með öryggisáætlun. Alls eru 29 fyrirtæki með leyfi til að bjóða íshellaferðir innan Vatnajökulsþjóðgarðs, þar af 25 sem eru virk.

Steinunn Hödd Harðardóttir er þjóðgarðsvörður á austurhluta suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs og rætt er við hana í þættinum. Á Breiðamerkursandi er atvinnutengd starfsemi umfangsmeiri en víðast hvar annars staðar innan þjóðgarðsins. Hún segist telja að íshellatímabilið á Breiðamerkurjökli sem nú er að klárast hafi gengið nokkuð vel. Hún segir að þjóðgarðurinn hafi fengið ábendingar um að skipuleggjendur ferða hafi gengið lengra en áður í framkvæmdum á jöklinum en engar umsóknir hafa fengið um leyfi til framkvæmda.

Ólíkt virðist komið fyrir svæðum á austanverðum og vestanverðum Breiðamerkurjökli. Austan megin hefur að sögn ekki verið gengið meira á náttúruna en tíðkast hefur á fyrri árum, en það eru aðallega smærri fyrirtæki að störfum, mikið til rekin af heimamönnum. Stærstu fyrirtækin starfa vestan megin og þau eru með fjölmennari ferðir, sum fara með allt að 700 manns á dag í íshellaferð, og það er á því svæði sem jöklaleiðsögumenn telja að of langt hafi verið gengið.

Umsjón með þættinum hefur Eyrún Magnúsdóttir

Íshellar á Breiðamerkurjökli

Titel
Íshellar á Breiðamerkurjökli
Copyright
Veröffentlicht

flashback